Vín vikunnar – Vina Esmeralda Rosé

Vín vikunnar hjá okkur að þessu sinni er Vina Esmeralda Rosé frá spænska léttvinsframleiðandanum Torres.

Um birgjann: Aftur tökum við fyrir vín frá Torres en þetta er fyrsta rósavínið frá birgjanum sem við fjöllum um. Þó að neysla á rósavíni sé enn tiltölulega lítil hérlendis, hefur neyslan aukist til muna á síðustu árum og vex t.a.m. mun hraðar heldur en neysla á rauðvíni eða hvítvíni. Stór ástæða fyrir því er síaukið úrval af hágæða rósavínum, líkt og þetta sem hér er um fjallað.

Lang flest rósavín eru búinn til úr rauðvínsþrúgum á borð við Pinot Noir, Syrah, Grenache eða Merlot. Þetta er þó alls ekki tæmandi listi, enda hægt að gera prýðis rósavín úr flestum þrúgutegnundum. Til að ná þessum sérstæða bleika lit, sem vínin draga nafn sitt af, er safinn úr þrúgunni látinn liggja með skinni berjanna í stuttan tíma. Því skemur sem safinn liggur með skinninu, því ljósar verður litur vínsins.

Bragð rósavína er yfirleitt mun næmara heldur en rauðvínin sem framleidd eru úr sömu þrúgum og geta verið allt frá því að vera mjög þurr í munni, yfir í að vera mjög ávaxtarík og sæt, en slíkt ræðst af héraði og framleiðanda hverju sinni. Rósavín frá gamla heiminum, Frakklandi, Spáni og Ítalíu, eru yfirleitt gerð til að parast vel með mat og eru því oft minna sæt heldur en þau frá Bandaríkjunum og öðrum nýja heims löndum.

Í sagnfræðilegu samhengi er talið að vínin sem forngrikkir hafi búið til hafi verið mun nær því að vera það sem við köllum í dag rósavín heldur en önnur léttvín. Jafnvel eftir að framleiðsluaðferðir við að búa til léttvín þróuðust og nútíma rauðvín og hvítvín hafi orðið til, hafa víngerðamenn í gegnum aldirnar haldið tryggð við rósavínsframleiðslu. Hér er því um að ræða undirflokk vína með ríka sögu.

Um vínið: 2016 árgangurinn af Vina Esmeralda Rosé er fyrsti árgangurinn af þessu víni sem Torres sendir frá sér. Er hér um að ræða vín sem er 100% af Garnacha þrúgunni og eru berin týnd í heimahérraði Torres í Katalóníu. Hugmyndin að baki þessu víni er að gefa neytandanum þá upplifun að hann finni fyrir sjávargolu Miðjarðarhafsins og finni rósalykt samhliða. Þetta er því hið fullkomna vín til að koma smá sumri í hjarta, þó veðurskilyrðin heima séu erfið.

Vínið er fölbleikt á lit, sérlega fallegur litur fyrir rósavín. Í braðgi má finna sítruskeim af bæði sítrónum og appelsínum, með vott af rósavökva og blómum.

Þetta rósavín parast með ýmiskonar mat, allt frá léttu salati að reyktum fisk. Frábært með sushi, asískum mat, laxi og túnfisk. Má einnig bera fram með ostum eftir mat.

Vínið er fáanlegt í fjórum verslunum Vínbúða.

Tilboð vikunnar: Til að fá upplýsingar um tilboð á víni vikunnar, skráðu þig í vínklúbbinn okkar.

Að auki fá nú allir meðlimir vínklúbbs Vín.is Wine Saver frá Vacuvin að gjöf, sem hægt er að nálgast á skrifstofu okkar. Wine Saver er pumpa sem tæmir loft úr opinni vínflösku og innsiglar flöskuna að nýju með margnota gúmmíhring. Tryggir þetta ferli að hægt er að njóta víns úr áður opinni flösku í mun lengri tíma heldur en ef korknum / skrúftappanum er einfaldlega komið fyrir aftur í flöskunni.

Deildu:

Facebook
Twitter
Pinterest
LinkedIn

Innihald:

Skyldar fréttir

Spurðu sérfræðinginn

Spurðu sérfræðinginn
First

Viltu senda okkur skilaboð