Annað árið í röð trónir Torres á toppi lista breska víntímaritsins Drinks Internatinal yfir virtustu víngerðir heims og er eina spænska og evrópska víngerðin sem hefur setið á toppnum þau sjö ár sem hann hefur verið tekinn saman.
Listinn er settur saman með því að fá álit yfir 100 sérfræðinga í vínfræðum (blaðamenn, vínþjónar, bloggarar, kennarar) sem beðnir eru um að velja þær þrjár víngerðir sem þeir dást mest að. Sérstaklega er litið til eftirfarandi þátta:
- Vín framleiðandans halda eða bæta gæði sín milli ára.
- Vínin endurspegla einkenni upprunasvæðis og/eða upprunalands.
- Vínin taka mið af þörfum og væntingum kaupenda.
- Umbúðir, pakkningar og markaðssetning.
- Vínin höfða til breiðs hóps neytenda.
Listinn er með öllu óháður; framleiðendur geta ekki keypt sig inn á listann, enda er það langt í frá sjálfgefið að stærstu vínframleiðendurnir rati á listann.
En hver er ástæðan fyrir að Torres tróni á toppnum ár eftir ár? Umsagnir dómnefndar voru m.a. eftirfarandi:
„Torres er leiðandi í öllum þáttum bransans, frá vínræktuninni og víngerðinni til markaðssetningar, svo ekki sé minnst á umhverfissþáttinn“.
„Einn af fáum vínframleiðendum sem leggur mikla áherslu á að fjárfesta í rannsóknum og þróun á hverju einasta ári“.
„Torres er vörumerki þar sem þú veist að þú ert að fá mikil gæði í hverjum verðflokki, ekki síst í premium línunni, og heldur áfram að vera framleiðandi með mikla fjölskylduhefð þar sem gæðin eru umfram öllu“.
Miguel Torres Maczassek, framkvæmdarstjóri Torres og fimmta kynslóð eiganda var að vonum ánægður með þessa viðurkenningu og árið í heild sinni fyrir fyrirtækið. Sala hefur aukist á öllum helstu mörkuðum, auk þess sem premium lína fyrirtækisins er nú víða fáanleg. Sem dæmi um það má nefna að yfir 80% af Michelin-stjörnu veitingastöðum Spánar bjóða nú upp á vín frá Torres.
Heimild: Drinks International