
Vín vikunnar hjá okkur að þessu sinni er Sangre de Toro Verdejo frá spænsku víngerðinni Torres.
Um birgjann: Áfram höldum við að taka fyrir spænska léttvínsbirgjann Torres. Vínbúðir standa nú fyrir þemadögum, þar sem hvítvín af öðrum þrúgum en fjórum stærstu (Chardonnay, Sauvignon Blanc, Riesling og Pinot Grigio) er gert ögn hærra undir höfði. Það er greinaröð um þessar minna þekktu þrúgur á heimasíðu Vínbúða en hér ætlum við að skoða hvað sérfræðingar hafa að segja um hvítvín af minna þekktum þrúgum frá Spáni:
Airen
Airen er mest ræktaða hvíta þrúgan á Spáni. Helsta ræktunarsvæðið þar er La Mancha og það er svo stórt að talað hefur verið um það sem stærsta svæði veraldar þar sem ein og sama þrúgan er í ræktun. Mjög stór hluti árlegrar uppskeru á Airen fer í að framleiða létt og einkennalítið hvítvín sem notað er til eimingar í hin frægu brandí kennd við Jerez.
Albarino
Þessi hvíta þrúga er sífellt að fá meiri athygli. Vínin eru talin einhver bestu hvítu vín Íberíuskagans. Albarino þrúgan er ræktuð bæði í Portúgal og á Spáni og er ræktunin mest á svæðunum nyrst í löndunum.
Þess má til gamans geta vín vikunnar hjá okkur fyrir tveimur vikum síðan var Pazo das Bruxas sem er 100% Albarino
Verdejo
Verdejo er hvít þrúga sem sífellt er að bæta við sig fleiri fylgjendum og ræktendum á Spáni. Hún gefur af sér grösug, vönduð hvítvín sem hafa ferska sýru og áhugaverðan grænjaxlatón. Þessi vín hafa sífellt verið að seljast betur hér á landi undanfarin ár. Þau má geyma eitthvað á flöskunni og þroskast þar í að gefa frá sér möndlu- og hunangstóna.
Viura
Þrúgan Viura er uppistaðan í hvítum vínum Rioja á Norður Spáni. Þetta er þrúga sem líklega hefur borist til Rioja frá Katalóníu, en þegar komið er þaðan og yfir í Suður Frakkland kallast hún Macabeo. Viura vínin eru flest afar einföld og sítruskennd, en svo eru til dæmi þar sem þrúgan er látin þroskast á nýjum eikartunnum í blöndu með öðrum þrúgum, en þá skilar hún mun flóknari víni.
Um vínið: Sangre de Toro Verdejo er 100% Verdejo, eins og nafnið gefur til kynna. Um er að ræða hluta af Sangre de Toro línunni frá Torres en hún hefur verið að breikka mikið á undanförnum árum. Í þeirri línu eru vín í lægri verðkantinum, en standa að sjálfsögðu undir þeim gæðakröfum sem gerðar eru til Torres og má því þar finna gæðavín á frábæru verði.
Sangre de Toro Verdejo er ljóssítrónugult á lit, ósætt, með léttri meðalfyllingu og ferskri sýru. Í nefi má greina sæta og súra ávexti, peru og greipaldin.
Vínið nýtur sín vel sem fordrykkur, en eins og góðu hvítvíni sæmir parast það vel með sjávarréttum og jafnvel fiskréttum í braðgmiklum sósum. Best borið fram við 8 – 10 gráðu hita.
Vínið er fáanlegt í sjö verslunum Vínbúða.
Tilboð vikunnar: Skráðu þig í vínklúbbinn okkar til að fá upplýsingar um tilboð á víni vikunnar og auk annara fríðinda.